Forgangur í ræsingu
Af öryggisástæðum er sterkari hjólreiðamönnum tryggður forgangur að ráslínu í Blue Lagoon Challenge. Mótstjórn velur, á grundvelli árangurs síðustu ára og sérstakra óska frá nýjum innlendum og erlendum keppendum, um 100-130 manna hóp karla og kvenna. Þessi hópur verður aðgreindur með sérstökum lit á keppnisnúmeri.
Ef þú telur þig eiga heima á þessum lista bendum við þér á að hafa samband við mótstjórn á netfangið blc@hfr.is.
Keppnisflokkar
Hægt er að taka þátt í Blue Lagoon Challenge í einstaklingskeppni, liðakeppni eða firmakeppni.
Aldurstakmark í þrautina er 16 ár, hægt er að fá undanþágu fyrir yngri, hafa þarf samband við mótstjórn.
Reglur
Almennar reglur Alþjóða Hjólreiðasambandsins (UCI) um fjallahjólamót (XC-marathon) eru hafðar til viðmiðunar við dómgæslu. Þátttakendur sem ekki fara eftir neðangreindum reglum eiga á hættu að verða skráðir úr mótinu. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að tryggja öryggi keppenda.
- Keppendur eru á eigin ábyrgð í keppninni.
- Hjóla skal alla leiðina á sama hjóli og lagt er af stað á. Ekki er leyfilegt að skipta um hjól, þó er leyfilegt að skipta um allan búnað á hjólinu, þ.e. gjarðir, dekk, gírbúnað, bremsur, stýri, gaffal, svo lengi sem hjólað sé á upphaflegu stelli (ramma), ef um bilun er að ræða. Utanaðkomandi aðstoð er ekki leyfð.
- Allir keppendur skulu hjóla með reiðhjólahjálm á meðan á keppni stendur.
- Liggistýri, letingjar, TT-bars eða annar sambærilegur búnaður er bannaður. Venjulegir stuttir stýrisendar (festir á enda fjallahjólastýris) eru leyfðir.
- Öll venjuleg reiðhjól eru leyfileg í keppninni, en gæta skal að búnaður á því, t.d. standari, bögglaberi, bretti o.s.frv, sé vel festur, og af búnaðinum stafi ekki hætta fyrir aðra keppendur.
- Hjólið skal drifið af mannafli, en ekki raforku, eða öðrum hreyflum.
- Múmer skal vera á fest á hjólið og flagan skal vera ofan á skónum eins flöt og mögulegt er.
- Keppnin fer fram á opnum vegum, og ber keppendum að virða umferðarreglur öllum stundum, t.d. þegar bílum er mætt, eða þegar hjólað er út á akbraut.
- Óheimilt er með öllu að kasta frá sér rusli á leiðinni, þ.m.t. drykkjarílát, umbúðum utan af orkugeli eða orkubitum.