UPPLÝSINGAR UM KEPPNINA

Hér að neðan má finna nytsamlegar upplýsingar um keppnina, reglur hennar og skráningargjöld.

SKRÁNING

Skráning fer fram að öllu leyti hér á vefnum. Ekki er tekið við skráningu með öðrum hætti. Ganga þarf frá greiðslu við skráningu. Keppnisgjald fæst ekki endurgreitt, nafnabreyting er leifð gegn 2500kr breytingargjaldi.

KEPPNISGJALD OG INNIFALIÐ

Gjaldið er 7.900,- krónur í forskráningu, en hækkar upp í 9.900,- krónur 1. mars, í 10.900,- krónur 15. Apríl og í 12.900,- krónur 15. Maí. Á mótsdegi er verð 15.000 ef það er ekki uppselt.
Boðið verður upp á kjötsúpu og ávexti og annað góðgæti í stóru partýtjaldi þar sem DJ OD mun halda uppi stuði og stemningu.
Aðgangur að Bláa Lóninu eftir keppni er innifalinn.

VERÐLAUNAAFHENDING

Verðlaunaafhending fyrir 1.- 3.sæti í öllum flokkum karla og kvenna fer fram í partýtjaldi eftir því sem úrslit verða ljós.

AFHENDING RÁSNÚMERA

Afhending rásnúmera fer fram í reiðhjólaverslununni Erninum frá kl. 13:00 – 18:00 og í Íþróttamiðstöðinni að Ásvöllum Hafnarfirði, á keppnisdeginum frá kl. 17:30.

RÆSING

Keppnin er ræst kl. 20:00 frá Ásvöllum í Hafnarfirði. Hópurinn hjólar saman undir lögreglufylgd um 3km leið suður að hesthúsunum þar sem tímataka hefst.

DRYKKJARSTÖÐVAR

Í keppninni er drykkjarstöð, og er staðsett við gatnamót Djúpavatns- og Ísólfskálavegar, eftir um 37 km leið. Síðari drykkjarstöðin er við endamark. Að auki er boðið upp á drykki og næringu við endamark.

Forgangur í ræsingu

Af öryggisástæðum er sterkari hjólreiðamönnum tryggður forgangur að ráslínu í Blue Lagoon Challenge. Mótstjórn velur, á grundvelli árangurs síðustu ára og sérstakra óska frá nýjum innlendum og erlendum keppendum, um 100-130 manna hóp karla og kvenna. Þessi hópur verður aðgreindur með sérstökum lit á keppnisnúmeri.

Ef þú telur þig eiga heima á þessum lista bendum við þér á að hafa samband við mótstjórn á netfangið blc@hfr.is.

Keppnisflokkar

Hægt er að taka þátt í Blue Lagoon Challenge í einstaklingskeppni, liðakeppni eða firmakeppni.
Aldurstakmark í þrautina er 16 ár, hægt er að fá undanþágu fyrir yngri, hafa þarf samband við mótstjórn.

EINSTAKLINGSKEPPNI

Einstaklingskeppni skiptist í karla- og kvennaflokk. Allir þátttakendur fá skráðan tíma eftir keppni, sem verður flokkaður skv. eftirfarandi aldursflokkum:

 • 16-18 ára
 • 19-29 ára
 • 30-39 ára
 • 40-49 ára
 • 50-59 ára
 • 60 ára og eldri

LIÐAKEPPNI

3-5 keppendur eru í hverju liði, 3 bestu tímar gilda. Hver keppandi getur einungis verið í einu liði. Að minnsta kosti þrír keppendur í liði þurfa að klára keppnina til að liðið fái skráðan tíma.

Hvers kyns samsetning á liðum er leyfileg (aldur, kyn, fjölskyldur, fyrirtæki o.s.frv.)

FIRMAKEPPNI

3-5 keppendur eru í hverju liði, 3 bestu tímar gilda. Hver keppandi getur einungis verið í einu liði. Hugmyndin er að starfsmenn fyrirtækis taki sig saman og keppi sem lið.

Hver keppandi getur einungis verið í einu liði í firmakeppni. Engin aukakostnaður er við liðaskráningu í firmakeppni, en við hvetjum fyrirtæki til að styrkja sína starfsmenn til þátttöku í keppninni.

Reglur

Almennar reglur Alþjóða Hjólreiðasambandsins (UCI) um fjallahjólamót (XC-marathon) eru hafðar til viðmiðunar við dómgæslu. Þátttakendur sem ekki fara eftir neðangreindum reglum eiga á hættu að verða skráðir úr mótinu. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til að tryggja öryggi keppenda.

 • Keppendur eru á eigin ábyrgð í keppninni.
 • Hjóla skal alla leiðina á sama hjóli og lagt er af stað á. Ekki er leyfilegt að skipta um hjól, þó er leyfilegt að skipta um allan búnað á hjólinu, þ.e. gjarðir, dekk, gírbúnað, bremsur, stýri, gaffal, svo lengi sem hjólað sé á upphaflegu stelli (ramma), ef um bilun er að ræða. Utanaðkomandi aðstoð er ekki leyfð.
 • Allir keppendur skulu hjóla með reiðhjólahjálm á meðan á keppni stendur.
 • Liggistýri, letingjar, TT-bars eða annar sambærilegur búnaður er bannaður. Venjulegir stuttir stýrisendar (festir á enda fjallahjólastýris) eru leyfðir.
 • Öll venjuleg reiðhjól eru leyfileg í keppninni, en gæta skal að búnaður á því, t.d. standari, bögglaberi, bretti o.s.frv, sé vel festur, og af búnaðinum stafi ekki hætta fyrir aðra keppendur.
 • Hjólið skal drifið af mannafli, en ekki raforku, eða öðrum hreyflum.
 • Múmer skal vera á fest á hjólið og flagan skal vera ofan á skónum eins flöt og mögulegt er.
 • Keppnin fer fram á opnum vegum, og ber keppendum að virða umferðarreglur öllum stundum, t.d. þegar bílum er mætt, eða þegar hjólað er út á akbraut.
 • Óheimilt er með öllu að kasta frá sér rusli á leiðinni, þ.m.t. drykkjarílát, umbúðum utan af orkugeli eða orkubitum.